19/09/2023
Bakgarður 102 km/ 15 hringir
Hvernig súmmerar maður svona dag upp?
Veðrið, fólkið, hausinn …þetta var einhver rosalegasta upplifun sem ég hef farið í gegnum.
Planið mitt var að koma mér fyrir aftarlega í startinu til að ég færi örugglega rólega. Amk fyrstu hringina. Gekk mjög vel og var jafnvel full rólegt til að byrja með.
Í hring 3 fór ég að finna undarlega verki í mjöðmum. Aldrei fundið svona verki áður og mjög stressandi að finna þá svona snemma. Prófaði að gefa aðeins í og þá skánuðu verkirnir. Fattaði þá að í beljandi rigningunni og rokinu var ég í buxum hönnuðum til að halda kulda 🤦♀️ ég var blaut í gegn og ískölld. Ákvað því að hraða í gegnum þennan hring og skipta um buxur.
Að skipta um buxur rennandi blautur, með þreytta fætur, í þröngu tjaldi og í tímaþröng er ekkert grín! Það var næstum erfiðara en að hlaupa hringina 😂. En klárlega þess virði og lífið batnaði, amk í smá stund.
Næstu hringir liðu í einhverri leiðslu. Hlaupa, setjast, borða, flautað aftur í start og aftur að hlaupa. Leið alltaf vel í skóginum en við Elliðavatn varð lífið erfitt. Rok og rigning í fangið og með því alltaf verkir í fótum. Alltaf efaðist ég þarna um framhald. En alltaf stóð maður upp og fylgdi fjöldanum að rásmarki.
Mér gekk líka ágætlega að teika fólk sem ég vissi að hefði reynslu eða ætlaði sér langt. Þá g*t ég slökt aðeins á heilanum og bara hlaupið áfram. Fannst samt fyrrihluti hringsins alltaf erfiður og misti stundum af, en gaf í og náði fólki í seinni hlutanum. Þegar rokið fór að lægja varð parturinn við Elliðavatn meira að segja ágætur. Á þeim parti eru 3 brýr sem urðu einhverskonar heilaleikfymi. “Komin yfir fyrstu, bara 2 eftir. Sco ertu komin heim”. -já tjaldstóllinn var “heim” í hausnum á mér. Þar sat ég örfáar mín á milli hringja. Fylgdist með pró liðinu í kringum mig hvernig þau vissu alltaf nákvæmlega hvað þau ætluðu að nýta pásuna í og undirbjuggu næstu. -fannst ég algjör amatör í mínu brasi.
Í 6 eða 7 hring (eða fyrr, ég var nett rugluð þarna) komu vinnufélagar mínir að hvetja. Náði lítið að heilsa, en ég hágrét að finna stuðninginn. Þvílíkt sem ég fann kraft frá þeim.
Í hringnum á eftir það (eða fyrir?) rakst ég à Rúnu þjálfara sem gaf líka ofurkraft. Næstu hringir voru þægilegir. -og það meira að segja hætti næstum að rigna örstutt 😆
8-undi hringur kláraðist og Sara kom með Líf. Það var svo gott að sjá þær. Og vá! Barnið mitt var einhver besti liðstjóri sem fyrir fynnst. Þvílík hjálp! Þótt ég kynni ekkert að nýta hana haha. En hún var með allt á tæru!
Hringur 9 (eða 10 🤯) að byrja og Þórir var mættur. Svo gott að stela faðm og kossi.
Hringur 11! Bað Líf að hafa tilbúinn ullarbol og jakka þar sem ég hafði aldrei skipt og orðin mjög kölld. Fór töluvert hraðar af stað og vildi hafa góðan tíma í pásu. Rétt komin 2km inn í hringinn og ég fann eitthvað losnaði á littlu tá. Skerandi sársauki og g*t ekki stigið í fótinn. Hélt þetta væri búið þarna. Kom mér haltrandi út á götu þar sem ég reif mig úr skó og sokk. Þá hafði nöglin dottið af og var að skerast í blöðru. Náði að ýta nöglinni til og þrýsta á blöðruna og losa um þrýsting. Ætlaði ekki að láta littlu tá skemma hlaupið fyrir mér!! En þarna fóru margar mikilvægar mín. Það er líka ekkert grín að beygja sig niður í kolniðamyrkri og beljandi rigningu eftir að hafa hlaupið tæplega 80km. Fæturnir voru ekki til í þessa liðleika þjálfun og fingurnir of kaldir til að reyma skóna. En þetta hafðist! Fyrstu skrefin voru sár en svo vandist það og ég gaf vel í. Var samt skíthrædd við tánna og að þetta væri búið. Þarna hringdi ég í mömmu sem var með Lukku. “Áfram mamma” frá Lukku og þá var ekkert í boði nema að þurrka tárin og harka af sér. Náði meira að segja í mark á betri tíma en í mörgum öðrum hringjum. Bað Líf að finna hælsærisplástra og sokka fyrir næsta hring. Í næsta hring hótuðu tærnar á hinum fætinum 😫, greinilega komið mikið af blöðrum í allri bleytunni. Fékk Þóri til að græja með mér fæturna á mér í næstu pásu. Ótrúlegt hvað þurrir sokkar geta gert fyrir mann …líka þótt þeir verði blautir e. 5mín.
Svo voru allt í einu bara 3 hringir eftir …2 hringir eftir. Þá leið mér vel og var að spá í 16 hring! En hausinn var á 15 hringjum og í síðasta fann ég að þetta var komið gott. Hafði líka alveg gleymt að skipta um bol/ jakka allan tíman og var líklega orðin hættulega köld.
En að koma í mark. 100 km! Ég trúði þessu eiginlega ekki. Síðasta km var ég hlaupandi á sæmilegum hraða. Man ég hugsað hvernig í ósköpunum líkami minn væri bara að gera þetta! Allar tilfinningarnar, réð ekki við tárin og vissi ekkert hvernig ég ætti að vera. Líf, Þórir og Sara voru í markinu sem gerir þetta allt enn sætara. Hversu heppin getur ein kona verið ❤️
Svo er það allt samferðafólkið í þjáningunni, vá hvað ég er ykkur öllum þakklát. Við gátum þetta! Við gerðum þetta! 💪
Þetta var “hlaupið” í sumar. Þótt ég hafi varla sagt það upphátt fyrr en í bláendann. 100km eru ekki hlaupnir án undirbúnings og eg gæti ekki hafaverið heppnari. Byrjaði í ultrahóp Náttúruhlaupa í byrjun árs þar sem ég naut þess að drekka í mig fræðslu frá Rúnu og Elísabetu. Hélt svo áfram hjá Rúnu eftir Laugavegshlaupið þar sem ég hafði laumað að henni þessu brjálaða markmiði. Undirbúningur gekk ágætlega, þurfti samt oft að hugsa í lausnum til að koma hlaupunum fyrir. En held það hafi bara styrkt hausinn. Toppurinn í planinu var 5 tinda hlaup í Mosó, þar gerðist eitthvað uppgrate í hausnum og eftir það vissi ég að ég væri tilbúin.💯 Var líka ómetanlegt að vera með þjálfara sem hafði alltaf trú á mér þótt þetta væri brjálað plan.