Hver/hvað er Spirit North
Spirit North er lítið jógasetur, gistiheimili og upplifunar konsept. Gistiheimilið okkar er búið fjórum fallegum og björtum herbergjum sem henta fullkomlega fyrir vini, pör eða einstaklinga sem vilja njóta þess að iðka jóga innandyra, eiga kyrrðar- og vellíðunardaga í friði eða einfaldlega njóta alls þess sem Húsavík og nágrenni hafa að bjóða.
Við bjóðum upp á reglulega jógatíma yfir veturinn, en einnig sérsniðna tíma, námskeið, ferðir og upplifanir – allan ársins hring. Í nágrenninu er að finna fjöldan allan af heilandi gönguleiðum og töfrastöðum fyrir jógaiðkun, kakó hugleiðslu eða gongslökun. Allt eftir því hvað hentar þér.
Við hlökkum til að taka á móti þér!
Ég heiti Huld og ég útskrifaðist sem Kundalini jógakennari sumarið 2011. Síðan þá hef ég kennt jóga á Húsavík og í nærsveitum. Ég er líka með kennararéttindi í Childplay Yoga og Radiant Child Yoga og hef nýtt það í jóga með börnum, bæði á leikskólaaldri en einnig 10-12 ára. Ég hef verið með námskeið fyrir unglinga, en einnig fært jóga inn á skrifstofur og stofnanir. Ég legg stund á nám í Sat Nam Rasayan heilun sem er heilunartækni innan Kundalini jógafræðanna. Sat Nam Rasayan þýðir einfaldlega: Heilun í djúpri þögn.
Ég hef alla tíð verið andlega þenkjandi en ekki endilega alltaf vitað hvernig ég ætti að höndla með sjálfa mig andlega. Síðustu tólf árin hefur lífið þó beint mér í fallegan farveg, í hverjum ég hef bæði lygnt aftur augunum og notið ferðalagsins en einnig á stundum streist á móti, fundist ég óundirbúin fyrir verkefnin framundan.
Í öllum aðstæðum hefur sjálfsvinna hjálpað mér og styrkt mig og síðast en ekki síst hvatt mig til að deila reynslunni með öðrum. Því oftar en ekki felst mesti lærdómurinn og þroskinn í að opna sig og deila með öðrum.
Ég er eiginkona, móðir þriggja barna og nemandi í mannfræði. Ég hef unnið í tengslum við hvali og hafið síðastliðin 17 ár og hvorutveggja skipar stóran sess í hjarta mínu.
Spirit North skapar umgjörð um mig, kennsluna mína og áhugasvið. Ég sé það fyrir mér vaxa og dafna. Spirit North er einnig vettvangur fyrir aðra jógakennara, tónheilara og ferska vinda og frjálsa anda til að koma til Húsavíkur og halda námskeið og viðburði.
Á næstu vikum opnar heimasíðan mín www.spiritnorth.is þar sem ég mun deila frekari upplýsingum um námskeið og viðburði framundan.