22/10/2025
Hvað þýðir að vera Fear Free dýralæknastofa?
Á Dýralæknastofu Hafnarfjarðar leggjum við ríka áherslu á að hver heimsókn sé eins streitulaus, örugg og jákvæð og hægt er, bæði fyrir dýr og eiganda.
Við störfum eftir Fear Free nálguninni, sem þýðir að við gerum allt sem í okkar valdi stendur til að draga úr hræðslu, kvíða og streitu hjá dýrunum sem koma til okkar.
Hvað felst í Fear Free nálguninni?
Fear Free er alþjóðlega viðurkennd aðferð sem byggir á vísindalegum grunni og áralangri reynslu af hegðun dýra og velferð þeirra.
Í einföldu máli þýðir þetta að við:
• Lesum hegðun og merkjamál dýranna vandlega, og tökum tillit til þess í öllu sem við gerum.
• Hönnuðum stofuna okkar út frá Fear free fræðunum, t.d. með tegundaskiptum biðstofum og skoðunarherbergjum og út frá litavali.
• Notum mýkri nálgun við snertingu, skoðun og meðhöndlun.
• Notum hrós, nammi og leikföng til að skapa góða upplifun.
• Forðumst óþarfa hávaða, sterka lykt, sterka liti og snöggar hreyfingar sem geta vakið óöryggi.
• Tökum tíma til að kynnast dýrinu áður en við hefjum skoðun eða meðferð.
• Bjóðum eigendum að vera með og taka þátt í ferlinu, svo bæði dýr og eigendur upplifi traust og ró.
Hvernig lítur þetta út í raun?
Oft má sjá muninn strax við komu. Til dæmis, ef köttur kemur í skoðun:
• Við höfum sérstakt biðsvæði fyrir ketti þar sem þeir sjá ekki hunda.
• Við erum með kisubiðstofu sem hundar koma ekki inn á (og hefur þ.a.l. enga hundalykt).
• Við notum róandi ferómón.
• Leyfum kisu að koma sjálf út úr búrinu þegar það er hægt.
• Ef kisa er mjög stressuð, gætum við boðið upp á kvíðastillandi lyf fyrir komu.
Þegar hundur kemur í skoðun:
• Stundum byrjar heimsóknin frammi. Starfsmaður hittir hann þar og gengur rólega með honum inn, með góðgæti í vasanum.
• Ef hundurinn sýnir merki um óöryggi, tökum við hlé, notum róandi raddir, leyfum honum að skoða herbergið.
• Ef hundurinn upplifir enn mjög mikinn kvíða gætum við boðið honum að heimsækja okkur aftur síðar án þess að „neitt“ gerist, bara til að fá jákvæða reynslu.
• Við notum róandi ferómón.
• Ef hundurinn er mjög hræddur gætum við boðið upp á kvíðastillandi lyf fyrir komu.
Hvernig gagnast þetta dýrinu?
Dýrið lærir smám saman að dýralæknisheimsóknir eru ekki ógnvekjandi, heldur jafnvel eitthvað gott. Það fær athygli, nammi og hrós.
Þetta hefur bein áhrif á líðan þess, hjartslátt, hormóna og almennt öryggi.
Dýr sem upplifa minni kvíða við heimsókn fá oft nákvæmari greiningar, því líkaminn er ekki í varnarviðbragði.
Hvernig gagnast þetta eigandanum?
Eigendur finna líka mikinn mun. Þeir þurfa ekki lengur að „draga“ dýrið sitt inn á stofuna, upplifa minna stress sjálfir, og heimsóknir verða að jákvæðri samvinnu milli eiganda, dýrs og starfsfólks.
Við viljum að eigendur viti að við hlustum, útskýrum og tökum aldrei óþarfa áhættu eða ákvarðanir í flýti. Við vinnum alltaf út frá öryggi og trausti.
Fear Free er ekki bara tækni - það er viðhorf.
Fyrir okkur er þetta ekki einungis ákveðin vinnuaðferð, heldur hugsunarháttur sem liggur að baki öllu sem við gerum.
Við trúum því að góð meðferð byggist á samkennd, þekkingu og virðingu fyrir dýrum.
Þegar dýrið upplifir sig öruggt, gengur allt annað betur - bæði læknisfræðilega og tilfinningalega.
Markmið okkar er einfalt:
Að hver heimsókn á Dýralæknastofu Hafnarfjarðar sé góð upplifun - eitt skref í átt að betri heilsu og hamingjusamara lífi, án ótta.