14/11/2025
Föstudagmolar forstjóra 14.11.2025
Ágæta samstarfsfólk hér á Reykjalundi,
Vel heppnaður Vísindadagur Reykjalundar.
Vísindadagur Reykjalundar var haldinn í 22. skipti í gær. 11 vísindaerindi tengd starfseminni okkar voru á dagskrá. Þessi fjöldi erinda ber sannarlega vott um blómlegt starf í vísindum og rannsóknum á Reykjalundi. Fjölmenni tók þátt í deginum og sérstök umfjöllun verður fljótlega á miðlum Reykjalundar um vísindadaginn ásamt myndasyrpu. Mig langar þó að nota þetta tækifæri og þakka öllum fyrirlesurum fyrir sín framlög og öllum sem tóku þátt í deginum með okkur.
Sérstaklega við ég þakka Mörtu Guðjónsdóttur rannsóknastjóra fyrir sitt einstaka framlag í þessu öllu en hún hefur stýrt deginum öll þessi 22 ár. Einnig vil ég þakka kærlega vísindaráðinu okkar, þeim Kristínu E. Hólmgeirsdóttur sjúkraþjálfara og formanni vísindaráðsins, Guðrúnu Nínu Óskarsdóttur lækni og Jónínu Sigurgeirsdóttur hjúkrunarfræðingi fyrir undirbúning og skipulag dagsins í samvinnu við Mörtu. Hjördís, Fannar, eldhúsið, dómnefnd og aðrir sem komu deginum eiga líka hjartans þakkir skildar en margir þurfa að koma að málum til að gera svona umfangsmikinn dag jafn glæsilegan og raun ber vitni. Myndin með molunum er einmitt frá vísindadeginum í gær.
Netöryggi heilbrigðisstofnana.
Í vikunni sótti ég mjög áhugavert málþing um netöryggi, stafræna heilsu og ýmis mál tengd þessu málaflokki út frá sjónarhorni heilbrigðisstofnana. Um leið og tölvur og tækni eru orðin mikilvægur og nauðsynlegur hluti af daglegri starfsemi heilbrigðisstofnana eykst líka hættan á misnotkun gagna, gangalekum og að mikilvægar upplýsingar lendi í röngum höndum. Þessi mál eru raunveruleg vá í starfsumhverfi íslenskrar heilbrigðisþjónstu og þeirri staðreynd verðum við að aðlagast. Til dæmis var fræðsla um ferli og umfang “gagnagíslatöku” sem er raunverleiki í okkar samfélagi. Einnig var mikið fjallað um aðferðir óprúttina aðila við að komast yfir gögn innan heilbrigðisstofnana þar sem oft er höfðað til trúgirni einstakra starfsmanna. Tíðni slíkra glæpa hefur aukið verulega á Norðurlöndum á síðustu árum. Ábyrgð stjórnenda í heilbrigðisþjónustu er líka að aukast með nýjum tilskipunum sem taka gildi á næst ári.
Ég vil því hvetja okkur öll til að huga vel að umgengni um tölvu- og tækjabúnað og öll rafræn göng. Við munum vera með frekari vitundarvakningu í þessum málaflokki á næstunni enda um stórt mál að ræða í okkar tilveru.
Sem dæmi um þetta er ég nú farinn að fylgja fyrirmælum Fannars okkar og farinn að senda alla fjöldapósta (eins og þennan) án þess að hægt sé að sjá netföng viðtakenda.
Reykjalundur í fjölmiðlum.
Reykjalundur er töluvert í fjölmiðlum þessa dagana. Þar ber líklega hæst umfjöllun Morgunblaðsins. Í gær, dag og morgun birtir blaðið greinar og viðtöl tengd starfseminni og sögunni okkar enda er 80 ára afmællisárið að kárast. SÍBS blaðið er svo að koma út á næstu dögum og er það að þessu sinni tileinkað starfseminni.
Njótið helgarinnar!
Bestu kveðjur,
Pétur