30/11/2025
“Leyfðu andartakinu að umlykja þig” 💗
„Leyfðu andartakinu að umlykja þig“ Þessa fallegu kveðju fékk ég fyrir stuttu og hún hefur dvalið í anda mínum síðan.
Ég sit hér seint á laugardagskvöldi og skrifa þessi orð meðan ég gæti barnabarna sem sofa vært. Að fá að vera með og leika við barnabörnin mín eru dýrmætustu stundirnar sem ég á í dag. Þegar ég er með þeim, er ég svo sannarlega umlukin andartakinu, því börnin eru alltaf í andartakinu. Ég fæ aftur þessa barnslegu einlægni, eftirvæntingu og kæti þegar ég leik við þau og gleymi öllu mínu streði og áhyggjum. Ég fæ að gleyma mér í þeirra undraveröld um stund, undraveröld sem er alltaf í andartakinu. Það er í þeirra návist sem veröld mín „meikar aftur sens“ afsakið frönskuna.
Heimur okkar fullorðinna hefur glatað andartakinu. Við lifum í heima hraða, ráðaleysis, kvíða, spennu og streitu. Við erum eins og litlir hvirfilbyljir í þeim heimi sem eiga það til að rekumst á, hvort heldur í umferðinni eða auglitis til auglitis, sem þeytir okkur út fyrir endamörk alheimsins, þannig lagað, inn í ofsareiði og ringulreið.
Ef við snertum jörð þá er það helst í fortíðinni, þar sem eftirsjáin og depurð eiga heima eða við snertum jörð í framtíðinni þar sem kvíðinn og óttinn bíður okkar. Hvoru tveggja er spírall sem veldur okkur skaða. Við snertum afar sjaldan jörð í andartakinu þar sem friður ríkir, hugarró og skýrleiki. Þar sem barnsleg gleði og eftirvænting umlykur.
Hingað til hafa þessi umskipti hjá mér, úr streitu-heimi fullorðinna inn í streitulausa andartakið með barnabörnunum, gerst áreynslulaust. Ég man ekki til þess að ég hafi þurft að hugsa það sérstaklega eða neyða mig inn í andartakið. Það gerist sjálfkrafa þegar ég er í návist þeirra sem lifa og hrærast í andartakinu, eins og litla fólkið okkar gerir.
En þessi góða kveðja, sem hefur dvalið í anda mínum, hefur hjálpað mér að staldra meira við í andartaki hversdagsins. Í andartaki fullorðna lífsins. Kveðjan hefur komið oft í deginum eins og hlýr, hvíslandi andblær þegar ég sinni húsverkunum eða er í göngutúr, þegar ég les bók eða þegar ég keyri, þegar ég er út í búð eða heima að elda, og þegar ég sit með ástvinum í spjalli.
Í dag kom kveðjan til mín í upphafi jólagjafaleiðangurs með eiginmanninum, eitthvað sem hefði hæglega getað valdið streitu og kvíða. En sá leiðangur var vel heppnaður, streitulaus og fullur af barnslegri gleði okkar beggja.
Eftir því sem ég næ að dvelja meira umlukin andartakinu, fá dagarnir annan blæ, verða innihaldsríkari, friðsælli og jafnvel litríkari á einhvern hátt.
Með öðrum orðum - Ég er viðstödd eigið líf.
Að leyfa andartakinu að umlykja okkur er eins og að stíga út úr hvirfilbylnum og inn í auga stormsins. Þar ríkir þögn. Þar ríkir friður. Þar sést til himins (skýrleiki). Þar þurfum við ekki að strita við neitt, elta eitthvað uppi, stjórna öllu eða hrifsa eitthvað til okkar. Þar kemur allt sem við þörfnumst til okkar á áreynslulausan hátt.
Þegar ég birti pistilinn er runnin upp Aðventa og aðventa þýðir eftirvænting. Við væntum komu friðarhöfðingjans og svo sannarlega þörfnumst við öll og heimurinn allur friðar.
Kveðja mín til þín inn í þessa aðventu er því þessi;
Leyfðu andartakinu að umlykja þig, dag í senn, eitt andartak í einu.
Takk fyrir að lesa