14/07/2021
Sjálfsást
Í tilefni nýja tunglsins í Krabba langar mig að skrifa um hugtakið sjálfsást.
Hugtakið hefur áreiðanlega jafn margar merkingar og við erum mörg en fyrir mér er sjálfástin "sjálfsást" þegar við elskum okkur og hlúum að okkur þegar okkur finnst við ekki eiga skilið að vera elskuð. Að yfirgefa okkur ekki þó aðrir geri það.
Á þessum erfiðu stundum skiptir sjálfsástin okkur mestu máli og þar af leiðandi er það þá sem við eigum erfiðast með að virkja hana.
Hjá mér er sjálfsástin mjög mismunandi eftir dögum. Stundum er það að taka hvíldardag mig þó innri gagnrýnandinn segir að ég sé ekki nógu dugleg. Næsta dag getur það verið að halda áfram á hnefanum þegar innri gagnrýnandinn segir að ég geti ekkert og ætti frekar að sleppa því að reyna.
Gera það sem lætur mér líða vel án þess að festa mig í þægindarammanum og gera aldrei neitt sem mér finnst erfitt. Taka við áskorunum án þess að brjóta eigin mörk á hverju ég vil ekki gera eða hef ekki orku til.
Sjálfsástin er líka að taka á móti mennskunni sinni með mildi. Þegar maður gerir mistök, gerir á hlut annarra, eða klúðrar einhverju að taka þá á móti sér með mildi í stað niðurrifs, læra af mistökum sínum og gera betur næst. Bjóða djöflunum sínum í te í stað þess að þykjast ekki hafa neina. Sættast við sína breyskleika, biturð eða sára fortíð. Það er hægara sagt en gert en afneitun er engin leið til bata. Við höfum jú öll eitthvað og það gerir okkur ekki verri en næsta mann.
Sjálfsástin er líka að fagna kostunum sínum og minna sig reglulega á þá án þess að falla í samanburðargryfjuna eða upplifa sem betri en aðra.
Þess vegna er sjálfsástin í mínu tilviki ekki alltaf leið sem er auðvelt að feta og mig grunar að hún sé það hjá fleirum. Sjálfsást er ekki að hugleiða þar til þú prumpar glimmeri og losnar við allt „neikvætt“ úr þínum hugsunum. Sjálfsást er þegar þú mætir þér og stendur þér að baki þó þig langi ekki til þess. Mína sjálfsást rækta ég með því að hlusta á mig eins vandlega og ég get og rækta sambandið við sjálfa mig. Augnablikin þar sem ég hef misst alla trú á sjálfri mér og sá eini sem mætir á svæðið er innri gagnrýnandinn, minna mig á hvað það er mikilvægt að rækta sjálfsástina og þess vegna er ég að deila þessu með þér. Þannig að þegar á reyni á hafir þú mögulega kannað þitt form af sjálfsást þegar þú þarft á henni að halda.
Megi þér ganga vel að finna þína sjálfsást,
Birna