30/11/2021
Fróðleiksmoli nóvembermánaðar sleppur inn á síðasta degi mánaðarins! Betra er seint en aldrei 🙂
Ein leið til að auka líkurnar á að barnið þitt verði viljugt að smakka mat og borða fjölbreytta fæðu er að hafa í huga að kaupa ekki alltaf sömu tegund af matnum. Sem dæmi, keyptu stundum skrúfupasta, stundum slaufupasta, stundum heilhveitipasta og ekki alltaf frá sama framleiðanda. Eða, stundum heimilisbrauð, stundum lífskorn, stundum rúnstykki. Mismunandi gerðir af jógúrt, skyri, mismunandi eplategundir. Þið skiljið.
Prófið líka að skera matinn ekki alltaf eins, t.d. stundum gúrku í sneiðum, stundum í strimlum, stundum í bitum. Skerið brauðið stundum í bita, stundum í þríhyrninga, stundum bara í tvennt.
Hafið enn fremur umbúðir sýnilegar þegar þið eldið matinn svo barnið sjái að það er ekki alltaf eins og að það er allt í lagi.
Athugið, það er auðvitað mikilvægt að taka tillit til þess hvar í fæðuinntökuþroskanum barnið er statt, þ.e.a.s. hvort barnið ræður við bita. Einnig er mikilvægt að fyrir sum börn með þroskafrávik eða aðrar greiningar á þetta ekki við. En almennt séð er þetta góð regla.