27/11/2024
✨️ Kveðjubréf ✨️
Í Desemberlok halda Sónó matseljur á vit nýrra ævintýra og kveðja Norræna Húsið sem hefur verið þeirra heimili síðastliðnu þrjú árin. Þessar síðustu stundir í húsinu verða full af gleði og bjóðum við upp á ljúffengan jólamatseðil og vermandi hátíðar drykki.
Í hringi árstíðanna 🌎 höfum við dansað með mat úr jurtum nærumhverfisins með þann ásetning ríkastann að tengja mann og náttúru á tímum þegar þráðurinn milli þessa tveggja heima er sem þunn blæja. Þó svo sagt er af jörðu erum við öll komin, þangað sem við munum öll aftur hverfa, erum við svo fá sem fáum notið að dýfa höndum okkar í mold, þar sem lífæð okkar slær, og rækta þaðan upp lítið fræ. Hvað þá þekkja strá eða fagurt blóm í haga.
Öll erum við tengd ✨️ og sannarlega er maturinn sem við borðum holdgervingur þess. “Þú ert það sem þú borðar.” Og í ásetningi þess fæddist Sónó, sem þýðist tónn náttúru og andardráttur jarðar. Matur fyrir framtíðina gerður af ásetningi að hver diskur sé mandala, tenging frá því er fræið var í moldu, þar til það umbreyttist í upplifun á disknum þínum.
Matur er nefnilega ábyrgð. Og hver maður ber ábyrgð á umhverfi sínu, moldu þess og hvers blóms í haga.
Á þessum tímamótum erum við full þakklætis fyrir móttökurnar, öllum þeim sem við höfum kynnst á leið, stórkostlegu starfsfólki, vinum og okkar bestu kúnnum. Norræna Húsinu viljum við þakka samstarfið sem þolað hefur ýmislegt í heimsfaraldri og húsaviðgerðum, en þó alltaf með vináttu og hjálparhönd til staðar.
Við erum þó hvergi nærri hætt. Enn er svo margt ógert og ósagt. Við bruggum áfram seyði, búum til smyrsli, þurrkum jurtir og blöndum te. Eldum upp súpur og töfrum fram veislur. Svo fylgist með.
Þetta er ekki búið ✨️
Ástarkveðjur og þakklæti,
Silla.