15/06/2018
Kæru íbúar Norðlingaholts.
Hér er tilkynning frá Barnaverndarstofu.
Kynningarfundur vegna opnunar stuðningsheimilis fyrir börn í Þingvaði 35
Staðsetning: Félagsmiðstöðin Holtið Norðlingabraut 12, 110 Reykjavík
Dagsetning: 25. júní 2018
Tímasetning: kl. 17:00 til 18:00
Barnaverndarstofa mun opna stuðningsheimili fyrir 2 til 3 börn í Þingvaði 35, 110 Reykjavík. Áætlað er að starfsemin hefjist í júlí/ágúst 2018 og er undirbúningur kominn af stað. Stuðningsheimilið verður fyrir börn sem eiga ekki afturkvæmt heim og þurfa stuðning og aðlögun að samfélaginu eftir að hafa lokið meðferð á vegum Barnaverndarstofu. Skilyrði fyrir búsetu á heimilinu er að vera án vímuefna, stunda skóla eða vinnu og fara eftir reglum heimilisins. Mikið verður lagt upp úr öryggi og vernd og verða ávallt 2 til 3 starfsmenn á vakt m.a. í þeim tilgangi að gera nærumhverfið öruggara. Staðsetning heimilisins tryggir aðgengi að fagfólki til stuðnings fyrir börnin, námi og eftir atvikum vinnu, uppbyggilegum og fjölbreyttum tómstundum ásamt útivist og nálægð við fjölskyldur barnanna. Það er von Barnaverndarstofu að íbúar í hverfinu taki vel á móti stuðningsheimilinu svo börnunum finnist þau vera velkomin í hverfið og fullgildir íbúar í nærsamfélaginu. Það eitt og sér getur haft mjög jákvæð áhrif á öryggi og dvöl barnanna á heimilinu.
Af þessu tilefni boðar Barnaverndarstofa til kynningarfundar þann 25. júní kl. 17:00 til 18:00 í félagsmiðstöðinni Holtinu, Norðlingabraut 12, 110 Reykjavík. Á fundinum munu fulltrúar Barnaverndarstofu kynna fyrirhugaða starfsemi stuðningsheimilisins og svara fyrirspurnum. Einnig verða á fundinum fulltrúar frá barnavernd Reykjavíkur, barnaverndarnefnd Kópavogs og umboðsmanni borgarbúa.
Nágrannar í Þingvaði og nærliggjandi götum og aðrir áhugasamir eru velkomnir á fundinn.
Allar nánari upplýsingar í síma Barnaverndarstofu - 5302600