03/11/2025
Ekki er langt síðan konukvöld var haldið í Kaffi Mörk en nú var komið að herrunum að gera sér glaðan dag. Stundvíslega klukkan 17. 30 voru rúmlega 20 herrar sem búa hjá Íbúðum 60+ mættir í Kaffi Mörk, tilbúnir að njóta stundarinnar í góðra vina hópi.
Stefán Pálsson sagnfræðingur og bjóráhugamaður kom og sagði frá tilurð bjórs og öls, það er víst munur á þessu tvennu. Hann lagði til kaup á fimm bjórtegundum, einum bjór frá Tékklandi, einum frá Belgíu, einum frá Bretlandi, einum frá Þýskalandi og einum frá Íslandi sem við buðum gestum upp á. Þetta voru fimm mismunandi bjórtegundir, allt frá „venjulegum“ bjór til dökks porters og yfir í „mysukenndan“ bjór. 🍺
Stefán fylgdi hverri tegund úr hlaði með fræðslu og skemmtilegheitum, eins og honum einum er lagið. Sumir gestanna skoluðu svo niður smakkbjórnum með sterkum Bola.
Mikil ánægja var með kvöldið meðal gesta og ekki örgrannt um að flestir þeirra hlakki til næsta karlabjórkvölds sem verður haldið seinni hluta októbermánaðar á næsta ári. 🥰
Það er næsta víst, eins og Bjarni Fel heitinn hefði orðað það, að þá verður Stefán Pálsson beðinn um að koma aftur til okkar og fræða okkur enn frekar um framandi slóðir áfengs öls.