11/12/2025
Félag tónskálda og textahöfunda og Tónskáldafélag Íslands sendu í gær eftirfarandi bréf á stjórnendur RUV:
Stjórnir Félags tónskálda og textahöfunda og Tónskáldafélags Íslands vilja koma eftirfarandi á framfæri við stjórnendur RÚV.
Við lýsum yfir vonbrigðum með að leitað hafi verið út fyrir hóp íslenskra tónhöfunda þegar nýtt einkennisstef frétta var samið fyrir RÚV.
Þar með er brotin áratuga hefð, þar sem íslensku tónskáldi er falið að semja stef fyrir ríkisútvarp og sjónvarp. Stef sem lifir með þjóðinni og gefur einum fréttatímanum vægi og aukna vigt.
Það að erlent fyrirtæki sérhæfi sig í hljóðmynd útvarps- og sjónvarpsstöðva eru ekki rök fyrir því að sniðganga íslenska höfunda. Fjölmargir framúrskarandi tónlistarmenn á Íslandi sérhæfa sig einmitt í þessu og hafa starfað við góðan orðstír út um allan heim.
Ríkisútvarp hefur skyldum að gegna gagnvart íslenskum listamönnum, á í nánu samstarfi við þá á ótal sviðum — og á að sjá sóma sinn í að leita til þeirra þegar samin eru verk fyrir stofnunina.
Við skorum á RÚV að endurskoða þessa misráðnu ákvörðun sem allra fyrst.
F.h. stjórna FTT og TÍ:
Bragi Valdimar Skúlason, form. FTT
Páll Ragnar Pálsson, form. TÍ