02/01/2026
Gleðilegt nýtt ár!
Félag lesblindra óskar landsmönnum gleðislegs árs og þakkar fyrir það liðna. Að baki er annasamt ár á margan hátt og félagðið hefur lagt sig eftir að kynna starfsemi þess og efla skilning og þekkingu á því sem lesblindir eiga við að glíma. Áfram verður haldið að efla þekkingu á stöðu lesblindra og félagið vinnur að því með sérfræðingum Háskóla Íslands að hleypa af stað nýrri rannsókn á stöðu lesblindra hér á landi.
Félagið telur mikilvægt að vinna út frá styrkleikum lesblindra enda hefur félagið bent á að ólík nálgun þegar kemur að námi sé mikilvæg uppspretta hæfileika og sköpunar. „Margir fullorðnir sem glímdu við námsörðugleika skara fram úr í heildrænni hugsun, mynsturgreiningu, sjónrænni rökhugsun, hagnýtri lausn vandamála og nýsköpun sem fer utan ramma hinnar hefðbundnu hugsunar. Ótrúlega margir frumkvöðlar hafa glímt við lesblindu. Þessir styrkleikar eru sífellt verðmætari á nútímavinnustöðum. Til að nýta sér möguleika allra verða vinnustaðir framtíðarinnar að vera skipulagðir þannig að allir geti tekið þátt á jafnréttisforsendum,“ segir Guðmundur S. Johnsen, formaður Félags lesblindra á Íslandi.
Þá er ábending til skólafólks að fá fulltrúa félagsins í heimsókn til að fjalla um lesblindu við nemendur og kennara. Allt frá árinu 2011 hefur félagið farið í skólaheimsóknir í unglingadeildir grunnskóla þar sem rætt er við alla nemendur ekki aðeins þá lesblindu um lesblindu, einkenni, áskoranir og styrkleika lesblindra. Þá er farið yfir hvaða úrræði hafa nýst vel til að takast á við þær áskoranir sem fylgja lesblindu. Í framhaldið hefur oft verið fundur með kennurum skólans. Endilega verið í sambandi við okkur til að panta heimsókn.
Gleðilegt nýtt ár!