Helga Rósa Másdóttir formaður Fíh

Helga Rósa Másdóttir formaður Fíh Helga Rósa Másdóttir er formaður Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga. Þetta er vettvangur til að sýna frá störfum formanns.

Erindum til formanns og Fíh skal beina til félagsins, hægt er að hafa samband við félagið í gegnum hjukrun.is eða í síma 5406400. Erindum til formanns og Fíh skal beina til félagsins, hægt er að hafa samband við félagið á Facebooksíðu þess, í gegnum hjukrun.is eða í síma 5406400.

Mig langar að minna hjúkrunarfræðinga á félagsfund sem haldinn verður á morgun (17. nóv) á Hilton og á Teams. Ég tel mik...
16/11/2025

Mig langar að minna hjúkrunarfræðinga á félagsfund sem haldinn verður á morgun (17. nóv) á Hilton og á Teams. Ég tel mikilvægt að breiður hópur hjúkrunarfræðinga mæti á fundinn svo að öll sjónarmið komi fram og að félagsfundurinn verði hjúkrunarfræðingum gagnlegur. Á fundinum skal ræða afstöðu félagsins til þátttöku þess í samstöðufundi um Þjóð gegn þjóðarmorði sem haldinn var þann 6. september síðastliðinn. Til að hafa atkvæðisrétt á fundinum þarf að skrá sig. Skráning er opin til kl. 12:00 á morgun og fer skráning fram hér https://www.hjukrun.is/vidburdir/felagsfundur-2025

Á föstudag var liðið eitt ár frá undirritun miðlægra kjarasamninga. Af því tilefni skrifaði ég pistil þar sem enn eru 3 heilbrigðisstofnanir ríkis án endurnýjaðra stofnanasamninga. Þau gleðitíðindi urðu þó að HSA kláraði sinn samning og tekur nú við kynning á honum fyrir hjúkrunarfræðingum austurlands. Við erum í virku samtali við vesturland og vonandi náum við í land þar von bráðar. Sóltún og SÁÁ gengu einnig frá nýjum samningum og er einstaklega ánægjulegt að sjá þegar stofnanir, líkt og þessar, gera sér grein fyrir fjárfestingargildi í hjúkrunarfræðingum.

Í vikunni fór af stað umræða í fjölmiðlum um fyrirhugaðar breytingar á hjúkrunarfræðinámi. Í október 2024 voru gerðar breytingar á reglugerð um viðmið um æðri menntun og prófgráður. Eftir þá breytingu er 240 ECTS eininga BS nám í hjúkrunarfræði í raun ekki lengur fýsilegur kostur. Flestar heilbrigðismenntaðar háskólastéttir á Íslandi eru fimm ára námsleiðir sem ljúka með meistaraprófi til starfsleyfis. Við síðustu miðlæga kjarasamninga sömdum við inn sömu launatöflu og BHM og því er einnig mikilvægt að við höldum þeirri vegferð áfram að auka samanburðarhæfni okkar við aðra háskólamenntaða sérfræðinga. Rökin fyrir því að þessar breytingar eru skynsamlegar eru ótal fleiri. Við hjá Fíh erum að skipuleggja upplýsingafund fyrir hjúkrunarfræðinga varðandi breytingar á náminu. Fundurinn verður haldinn þann 14. janúar næstkomandi og hvet ég ykkur til þess að setja þá dagsetningu í dagatalið en nánari tilkynning kemur út á næstu dögum.

Hluti af starfi okkar á skrifstofunni er að skila inn umsögnum um mál sem viðkoma hjúkrunarfræðingum. Nýlegar umsagnir hafa t.a.m. fjallað um breytingar á lögum um sjúkratryggingar, viðurkenningu á faglegri menntun og hæfi til að starfa hér á landi og breytingar á sóttvarnalögum. Við Helga Pálmadóttir sviðsstjóri fagsviðs Fíh vorum einmitt kallaðar fyrir Nefnda- og greiningasvið Alþingis í vikunni til þess að fjalla um umsögn okkar varðandi sóttvarnalög. Við gerðum athugasemd við að í farsóttarnefnd skuli ekki sitja hjúkrunarfræðingur með sérþekkingu í sýkingavörnum eins og er í sóttvarnarráði í 6 gr. í núverandi lögum. Hjúkrunarfræðingar búa yfir sérþekkingu á sviði sýkingavarna og samspili sjúkdóma og samfélagslegra þátta. Þessi þekking er nauðsynleg þegar móta á stefnu og aðgerðir í sóttvörnum og tryggir að sjónarmið sjúklinga, samfélags og heilbrigðiskerfis séu metin í heildrænt. Fíh gerir því kröfu um að hjúkrunarfræðingur eigi sæti í farsóttanefnd.

Sumir líta svo á að þegar hrekkjavöku er lokið sé í lagi að byrja skreyta fyrir jólin og spila jólalög…ég er ekki alveg þar en við á skrifstofunni erum nú samt búin að setja upp jólatréð inni í sal – því nú fara fagdeildir að halda sína jólafundi og því er mikilvægt að skapa jólalegan anda í félaghúnsæði okkar. Ég vona að hjúkrunarfræðingar nýti sér fagdeildirnar vel til þess að efla tengsl og deila þekkingu. Gleðileg jó…nei ekki alveg strax! Þar til næst 😉

Landslið Íslands?Undanfarið hefur verið fjallað um hjúkrunarfræðing sem fær ekki íslenskan ríkisborgararétt, einfaldlega...
28/10/2025

Landslið Íslands?

Undanfarið hefur verið fjallað um hjúkrunarfræðing sem fær ekki íslenskan ríkisborgararétt, einfaldlega vegna þess að hún uppfyllir ekki þá tímalengd sem íslenska ríkið krefst. Samt sinnir hún mikilvægri hjúkrun á gjörgæslu, þar sem líf fólks er bókstaflega í hennar höndum.

https://www.mbl.is/frettir/innlent/2025/10/26/neita_hjukrunarfraedingi_um_rikisborgararett/

Við höfum áður séð íþróttafólk fá undanþágur frá sömu reglum, í þágu landsins. Af hverju ekki hjúkrunarfræðing sem sinnir veikasta fólkinu okkar, dag eftir dag?
Hún hefur meira að segja lagt sig fram við að læra íslensku, þótt það sé ekki einu sinni krafa í starfi hennar. Það segir allt sem segja þarf um vilja hennar til að tilheyra, leggja sitt af mörkum og vera hluti af samfélaginu okkar.

Sjúkraliðafélag Íslands hefur nýlega hrundið af stað flottri herferð um „landsliðið í hjúkrun“. Ég spyr, hefur Ísland efni á að missa hjúkrunarfræðinginn Joanne úr sínu liði?

Þá er veturinn mættur. Búið að halda Hjúkrun á Akureyri sem var frábær skemmtun og upplyfting fyrir fagið okkar. Ótrúleg...
28/10/2025

Þá er veturinn mættur. Búið að halda Hjúkrun á Akureyri sem var frábær skemmtun og upplyfting fyrir fagið okkar. Ótrúlega gaman að hitta alla hjúkrunarfræðingana sem mættu, eiginlega eins og að mæta á ættarmót 🥰
Í september og október sótti ég stjórnar- og aðalfundi SSN og EFN, en það eru Norðurlanda- og Evrópusamtök hjúkrunarfræðinga sem við erum aðilar að. Fyrir Norðurlandafundinn fórum við í göngu með Gadens Stemmer, en það eru samtök fólks sem hefur lifað á jaðri samfélagsins og bjóða þau upp á borgargöngur með einlægum frásögnum af lífsreynslu sinni. Þetta var frábær ganga sem við áttum með Julie sem deildi með okkur reynslu sinni af því að vera háð vímuefnum í æð í Kaupmannahöfn. Saga hennar sýndi svo vel að hver sem er getur orðið fastur í klóm fíknar en minnti einnig á að það er von um bata með góðri aðstoð. Sem tengist einmitt annarri heimsókn sem ég fór í. Heimsókn í Ylju sem átti eins árs afmæli. Ylja er neyslurými rekið af Rauða Krossinum í samstarfi við LSH. Þar er farið eftir skaðaminnkandi hugmyndafræði en hún er mikilvæg og gagnsöm þegar einstaklingum með fíknivanda er sinnt. Það eykur einnig líkur á bata að mæta skilningi og fræðslu og að fólki sé gert kleift að vera öruggt í sinni neyslu. Þannig stuðlum við líka að reisn einstaklinga sem aftur er hjálplegt í bataferli. Hún Julie í Gadens Stemmer snart mig djúpt og það er okkur öllum hollt að muna að bakvið alla sjúkdóma er manneskja sem er alveg eins og ég og þú - ég mæli með borgargöngu Gadens Stemmer ef þú átt leið um Kaupmannahöfn 🧜‍♀️
Á Norðurlandafundinum ræddum við talsvert viðbúnað landa þegar hörmungar dynja yfir. Það kom glöggt í ljós í Covid faraldrinum hve mikilvægir hjúkrunarfræðingar eru þegar vá ber að höndum. Það er ekki nóg að eiga bara öndunarvélar og tæki. Við þurfum hæft fólk til þess að vinna við þessi tæki og sinna einstaklingunum sem þarfnast þeirra. Sama á við um stríð, það er ekki nóg að eiga byssur. Innviðir þurfa að vera sterkir og eru hjúkrunarfræðingar gríðarlega verðmætt afl innan samfélaga sem nauðsynlegt er að fjárfesta í. Saman vinnum við Norðurlöndin við að vekja athygli stjórnavalda á því.
Á bæði Evrópufundi og Norðurlandafundi ræddum við nám í hjúkrunarfræði og skort á hjúkrunarfræðingum á heimsvísu auk viðbúnaðar við vá. Enn og aftur er minnt á tilmæli Alþjóðaheilbrigðismálastofnunar að ríkari þjóðir eiga ekki að reiða sig á hjúkrunarfræðinga annarra landa sem þurfa jafn mikið á þeim að halda. Einnig er talsvert rætt um framhaldsmenntun hjúkrunarfræðinga og skort á henni, saman þurfum við að fræða yfirvöld um mikilvægi þess að styrkja háskólanám í hjúkrunarfræði, meðal annars til þess að tryggja sjálfbærni við kennslu. Ástandið í Palestínu var einnig til umræðu og gáfum við út yfirlýsingu í kjölfar fundarins þar sem samtökin (EFN) lýsa samúð og stuðningi við hjúkrunar- og heilbrigðisfólk á Gaza. EFN hvetur hjúkrunarsamfélagið allt til samstöðu í enduruppbyggingu heilbrigðiskerfisins á Gaza og undirstrikar að forysta hjúkrunarfræðinga sé lykill að árangri. Hjúkrunarfræðingar vinna alltaf út frá þörfum einstaklinga og því vel til þess fallnir að leiða sjálfbæra og réttláta uppbyggingu eftir þær hörmungar sem átt hafa sér stað á svæðinu.
Aftur heim. Það er komið skrið á samtal við þær stofnanir ríkis sem eiga eftir að endurnýja samninga við Fíh eftir alltof langa þögn frá því í sumar. Samtal nú lofar góðu og vonandi verður hringnum lokað næstu daga. Góður gangur er í samningaviðræðum við aðra aðila og höfum við þegar undirritað samning við SA en hjúkrunarfræðingum á almennum markaði fer fjölgandi, þá er fínt að minna hjúkrunarfræðinga á að hafa samband við stéttarfélagið sitt áður en þeir skrifa undir ráðningsamning svo ljóst sé um öll réttindi fyrir undirskrift. Það er margt fleira framundan hjá okkur, samstarf við Endurmenntun HÍ, áframhaldandi vinna við endurskoðun námskrár í hjúkrunarfræði og félagsfundur sem ég vona að verði vel mætt á.

Nú er orðið ansi dimmt út og minni ég á mikilvægi endurskinsmerkja. Ef ykkur vantar endurskin þá er um að gera að koma í heimsókn til okkar á Suðurlandsbrautina og næla sér í endurskins-skúf og hengja á töskuna sína eða hvar sem hann sést! Því sýnileiki hjúkrunarfræðinga er mér mikilvægur – á allan hátt. Þar til næst, bestu kveður til allra ✊

Haustið er farið að sækja í sig veðrið og sumardagar orðnir færri síðustu vikur. Verkefni vetrarins eru farin að taka á ...
10/09/2025

Haustið er farið að sækja í sig veðrið og sumardagar orðnir færri síðustu vikur. Verkefni vetrarins eru farin að taka á sig skýrari mynd og ég hlakka til að takast á við þau.
Í þessari viku átti ég fund með Ölmu Möller, heilbrigðisráðherra. Þetta var fyrsti fundur okkar frá því að ég tók við sem formaður Fíh og tvö málefni voru á dagskrá. Annars vegar íslenskukunnátta hjúkrunarfræðinga af erlendu þjóðerni og hins vegar staða stofnanasamninga.
Við ræddum fjölgun hjúkrunarfræðinga sem koma hingað til lands til starfa erlendis frá og bentum á skort á heildstæðu móttökuferli. Þá lögðum við áherslu á mikilvægi íslenskukunnáttu til að auðvelda inngildingu í samfélagið og til þess að tryggja öryggi og gæði í heilbrigðisþjónustunni. Einnig ræddum við um skort á stefnu stjórnvalda í þessum málaflokki, og fengum við góða hlustun. Fíh mun áfram tala fyrir heildstæðari og markvissari móttöku hjúkrunarfræðinga erlendis frá og vonandi sjáum við jákvæðar breytingar í þeim efnum.

Eins og flestir hjúkrunarfræðingar vita stöðvuðust viðræður um stofnanasamninga við heilbrigðisstofnanir ríkisins í júlí. Tókum við það mál upp við ráðherra. Áhersla Fíh í þessum samningum er að tryggja starfsþróunarkerfi fyrir hjúkrunarfræðinga og kom í ljós samstaða um innleiðingu á slíku kerfi á fundinum með ráðherra. Viðræðurnar gengu vel þar til í sumar, þegar þær stofnanir sem eftir stóðu drógu sig til baka. Nú þegar njóta 82% hjúkrunarfræðinga á heilbrigðisstofnunum landsins starfsþróunarkerfis.
Þeir hjúkrunarfræðingar sem enn hafa ekki fengið sambærilega samninga fylgjast náið með gangi mála og eru eðlilega orðnir óþreyjufullir. Við hjá Fíh skiljum þá vel og gerum allt sem í okkar valdi stendur til að ljúka stofnanasamningum allra hjúkrunarfræðinga, það stendur ekki á okkur.

Ég, ásamt formönnum Ljósmæðrafélags Íslands, Læknafélags Íslands og Sjúkraliðafélags Íslands, höfum sameinast um að fylgja eftir ákalli sem við sendum frá okkur í sumar. Þar kröfðumst við þess að mönnunarmál yrðu sett í forgang hjá yfirvöldum og að heilbrigðisstofnanir fái fjármagn og heimildir til að manna störf út frá faglegum forsendum og í þágu skjólstæðinga (stofnanasamningar😉) ásamt fleiri atriðum.

Við formennirnir hittumst reglulega og förum yfir sameiginleg hagsmunamál sem eru mörg. Við eigum fund með heilbrigðisráðherra síðar í mánuðinum. Þar munum við leggja áherslu á að ábendingum Ríkisendurskoðunar sé fylgt eftir, að ráðuneytið hafi betri yfirsýn yfir heilbrigðisþjónustuna með skýrari stefnu, markmiðum og tengingu við fjármagn. Einnig teljum við brýnt að greina mannafla í heilbrigðisþjónustu og gera raunhæfa spá og aðgerðaráætlun um hvernig eigi að mæta sívaxandi þjónustuþörf samfélagsins fyrir hæfu heilbrigðisstarfsfólki.

Ég hef fengið fyrirspurnir og athugasemdir vegna þess að stjórn Fíh ákvað að taka ekki formlega þátt í samstöðufundi á Austurvelli undir yfirskriftinni Þjóð gegn þjóðarmorði. Stjórn Fíh ákvað að senda bæði forsætis- og utanríkisráðuneytinu áskorun um að íslensk stjórnvöld beiti sér fyrir því að stöðva dráp og ofbeldi sem á sér stað á Gaza. Auk þess hvatti Fíh öll til þess að sýna samstöðu með fórnarlömbum stríðs, óréttlætis og ofbeldis og að krefjast þess að mannréttindi séu virt.
Fíh hefur að auki ályktað og birt mótmæli og áhyggjur reglulega á opinberum vettvangi vegna þeirra grimmdarverka sem eiga sér stað fyrir botni Miðjarðarhafs. Stjórn Fíh er einhuga um að henni geti aldrei verið heimilt að taka afstöðu fyrir hönd allra íslenskra hjúkrunarfræðinga með öðrum aðila tveggja stríðandi fylkinga og enn síður að krefjast pólitískra refsiaðgerða í nafni íslenskra hjúkrunarfræðinga. Slíkt gæti a.m.k. aldrei gerst án undangenginnar umræðu á vettvangi félagsins. Í þessum efnum voru bæði lög og siðareglur okkar höfð til hliðsjónar og einnig algengasta verklag þeirra fjölmörgu erlendu félaga hjúkrunarfræðinga sem við erum í miklu sambandi við. Mér er það ljóst að það eru ekki allir sáttir við þá ákvörðun stjórnar Fíh að taka ekki formlega þátt í samstöðufundi með Palestínu. Það er sjálfsagt að virða það og hvet ég hjúkrunarfræðinga til þess að halda samtalinu áfram og láta félagið sitt, hlutverk þess og tilgang sig varða.

Í gær sat ég málþing á vegum BHM undir yfirskriftinni Hvers virði er háskólanám? Þar kom fram að háskólamenntun skilar sífellt minni ávinningi fyrir einstaklinga. Það er alvarleg niðurstaða fyrir samfélag sem reiðir sig á sérfræðimenntaða einstaklinga, eins og hjúkrunarfræðinga, til að tryggja velferð, nýsköpun og framþróun þekkingar.

Á málþinginu kom einnig fram að konur þurfa að ná sér í háskólagráðu til að geta staðið jafnfætis körlum með stúdentspróf í launum og sýnir það enn á ný þann veruleika að konur þurfa að leggja meira af mörkum til þess að ná sama virði í launum og karlar. Baráttumálin eru næg fyrir okkur.

Í dag er alþjóðlegur forvarnardagur sjálfsvíga. Með því að klæðast eða skreyta með gulu sýnum við stuðning við geðheilbrigði og sjálfsvígsforvarnir. Þetta er afar mikilvægt málefni og í ár er sérstök áhersla lögð á geðheilbrigði eldra fólks.
Eldra fólk leitar sjaldnar aðstoðar en þeir sem yngri eru en margir finna engu að síður fyrir einmanaleika og félagslegri einangrun. Mikilvægt er að bregðast við þessu, því það er ekki eðlilegt ástand að vera dapur eða einmana þó árin færist yfir.
Það er okkar hjúkrunarfræðinga að vera á varðbergi, grípa inn í og veita viðeigandi stuðning og aðstoð þegar svo ber við.

Það er auðvitað sitthvað fleira búið að vera í gangi eins og samstarfsfundir með stofnunum, tæknimál á skrifstofu, heimsóknir og fyrirlestrar.

Nú fer að koma að uppskeruhátíð okkar hjúkrunarfræðinga. HJÚKRUN 2025 fer fram í Hofi á Akureyri 25.-26. september. Í ár urðu þau tímamót að það seldist upp á ráðstefnuna en yfir 500 hjúkrunarfræðingar eru skráðir en því miður leyfir húsrýmið ekki fleiri þátttakendur. Það gleður mig mjög að sjá hversu mikill áhugi og þátttaka er í þessari uppskeruhátíð fræða og vísinda í hjúkrun. Ég er sannfærð um að aukin réttindi og stofnun Starfsþróunarseturs Fíh, sem varð til í kjölfar síðustu kjarasamninga, hafi þar mikið að segja.
Það eru auðvitað fjölmörg verkefni framundan, sum stór, önnur smærri. Samstarf vegna breytinga á hjúkrunarfræðinámi, ljúka stofnanasamningum, þjónustukönnun Fíh, halda erindi o.fl. en skemmtilegasta verkefnið næstu vikur án efa á Akureyri – sjáumst þar!

Þá er farið að síga á seinni hluta sumars og dásamlega haustið framundan. Ég er búin að eiga gott frí með fjölskyldunni ...
15/08/2025

Þá er farið að síga á seinni hluta sumars og dásamlega haustið framundan. Ég er búin að eiga gott frí með fjölskyldunni og hlakka til að takast á við komandi verkefni af fullum krafti.
Í júlí sendum við formenn félaga hjúkrunarfræðinga, ljósmæðra, lækna og sjúkraliða frá okkur ákall um aðgerðir og breytingar vegna svartar skýrslu ríkisendurskoðunar á stöðu heilbrigðisþjónustunnar. Nú mánuði síðar hefur okkur boðist fundur í september.
Unnur Berglind formaður ljósmæðrafélags Íslands mætti í Bítið á Bylgjunni í morgun að vekja athygli á stöðunni fyrir okkar hönd.

https://www.visir.is/k/a42f79f8-1942-4632-aec1-f59732a71784-1755244662127?fbclid=IwY2xjawML01pleHRuA2FlbQIxMABicmlkETB2Tm9lb0dsZUMwYUZjVGVSAR4wBong5lFbDmQkhMwo-Ne7rKlbvbsWAbRqw4w8Vx42Z6ClyVkM6R3iwGiy4A_aem_0NUivqXPALb8WWbjxlh-3A

Ég er auðvitað alin upp í bráðaumhverfi þar sem ákvarðanir og aðgerðir gerast hratt. Í núverandi umhverfi finnst mér stundum hlutirnir gerast hægt. Forveri minn ræddi til að mynda við núverandi ráðherra í febrúar að setja á reglubunda fundi milli ráðherra og formanns. Það var eitt af mínum fyrstu verkum í starfi í maí að óska eftir reglubundnum fundum með ráðherrra. Það hafðist núna í ágúst að fá þá fundartíma og fagna ég því mjög. Ég hlakka til að eiga í góðu samtali við ráðherra og heilbrigðisráðuneyti. Þó aðilar séu ekki alltaf sammála þá er samtalið mikilvægt. Góð og rétt upplýsingagjöf er einnig forsenda farsælla samskipta.

Í byrjun júlí óskaði ég einnig eftir fundi vegna afskipta heilbrigðisráðuneytis af stofnanasamningum milli Fíh og heilbrigðisstofnana, mér hefur ekki verið svarað ennþá. Það hlýtur að vera hagsmunamál ráðuneytisins að heyra sjónarmið Fíh í þeim efnum, við erum tilbúin og viljug til samtals.

Við höldum alltaf ótrauð áfram. Verkefnin eru mörg og fjölbreytt og teymið á skrifstofu Fíh er samstillt og fullt eldmóði að gera störf hjúkrunarfræðinga eftirsótt og góð.

Nú fer að líða að uppskeruhátíð okkar hjúkrunarfræðinga. HJÚKRUN 2025 fer fram í Hofi á Akureyri 25.-26. september og ef þú kæri hjúkrunarfræðingur ert ekki búinn að skrá þig þá er enn hægt að gera það hér https://radstefna.hjukrun.is/
Ég hlakka til að sjá sem flesta þar!

Síðan leyfi ég einni mynd úr sumarfríi fjölskyldunnar að fylgja með 🥰

„Kjarni hjúkrunar er umhyggja fyrir skjólstæðingnum og virðing fyrir lífi hans, velferð og mannhelgi.Hlutverk hjúkrunarf...
08/08/2025

„Kjarni hjúkrunar er umhyggja fyrir skjólstæðingnum og virðing fyrir lífi hans, velferð og mannhelgi.
Hlutverk hjúkrunarfræðings er að efla heilbrigði, bæta líðan og lina þjáningar.
Hjúkrunarfræðingur hjúkrar af virðingu fyrir einstaklingum og fer ekki í manngreinarálit.”

https://prismic-io.s3.amazonaws.com/hjukrun/62abbf82-8c5f-446b-9991-638795d72fa0_Siðareglur_2022.pdf

🏳️‍🌈 GLEÐILEGA HINSEGIN DAGA 🏳️‍🌈

Address

Suðurlandsbraut 22
Reykjavík
108

Alerts

Be the first to know and let us send you an email when Helga Rósa Másdóttir formaður Fíh posts news and promotions. Your email address will not be used for any other purpose, and you can unsubscribe at any time.

Contact The Practice

Send a message to Helga Rósa Másdóttir formaður Fíh:

Share

Share on Facebook Share on Twitter Share on LinkedIn
Share on Pinterest Share on Reddit Share via Email
Share on WhatsApp Share on Instagram Share on Telegram