16/11/2025
Mig langar að minna hjúkrunarfræðinga á félagsfund sem haldinn verður á morgun (17. nóv) á Hilton og á Teams. Ég tel mikilvægt að breiður hópur hjúkrunarfræðinga mæti á fundinn svo að öll sjónarmið komi fram og að félagsfundurinn verði hjúkrunarfræðingum gagnlegur. Á fundinum skal ræða afstöðu félagsins til þátttöku þess í samstöðufundi um Þjóð gegn þjóðarmorði sem haldinn var þann 6. september síðastliðinn. Til að hafa atkvæðisrétt á fundinum þarf að skrá sig. Skráning er opin til kl. 12:00 á morgun og fer skráning fram hér https://www.hjukrun.is/vidburdir/felagsfundur-2025
Á föstudag var liðið eitt ár frá undirritun miðlægra kjarasamninga. Af því tilefni skrifaði ég pistil þar sem enn eru 3 heilbrigðisstofnanir ríkis án endurnýjaðra stofnanasamninga. Þau gleðitíðindi urðu þó að HSA kláraði sinn samning og tekur nú við kynning á honum fyrir hjúkrunarfræðingum austurlands. Við erum í virku samtali við vesturland og vonandi náum við í land þar von bráðar. Sóltún og SÁÁ gengu einnig frá nýjum samningum og er einstaklega ánægjulegt að sjá þegar stofnanir, líkt og þessar, gera sér grein fyrir fjárfestingargildi í hjúkrunarfræðingum.
Í vikunni fór af stað umræða í fjölmiðlum um fyrirhugaðar breytingar á hjúkrunarfræðinámi. Í október 2024 voru gerðar breytingar á reglugerð um viðmið um æðri menntun og prófgráður. Eftir þá breytingu er 240 ECTS eininga BS nám í hjúkrunarfræði í raun ekki lengur fýsilegur kostur. Flestar heilbrigðismenntaðar háskólastéttir á Íslandi eru fimm ára námsleiðir sem ljúka með meistaraprófi til starfsleyfis. Við síðustu miðlæga kjarasamninga sömdum við inn sömu launatöflu og BHM og því er einnig mikilvægt að við höldum þeirri vegferð áfram að auka samanburðarhæfni okkar við aðra háskólamenntaða sérfræðinga. Rökin fyrir því að þessar breytingar eru skynsamlegar eru ótal fleiri. Við hjá Fíh erum að skipuleggja upplýsingafund fyrir hjúkrunarfræðinga varðandi breytingar á náminu. Fundurinn verður haldinn þann 14. janúar næstkomandi og hvet ég ykkur til þess að setja þá dagsetningu í dagatalið en nánari tilkynning kemur út á næstu dögum.
Hluti af starfi okkar á skrifstofunni er að skila inn umsögnum um mál sem viðkoma hjúkrunarfræðingum. Nýlegar umsagnir hafa t.a.m. fjallað um breytingar á lögum um sjúkratryggingar, viðurkenningu á faglegri menntun og hæfi til að starfa hér á landi og breytingar á sóttvarnalögum. Við Helga Pálmadóttir sviðsstjóri fagsviðs Fíh vorum einmitt kallaðar fyrir Nefnda- og greiningasvið Alþingis í vikunni til þess að fjalla um umsögn okkar varðandi sóttvarnalög. Við gerðum athugasemd við að í farsóttarnefnd skuli ekki sitja hjúkrunarfræðingur með sérþekkingu í sýkingavörnum eins og er í sóttvarnarráði í 6 gr. í núverandi lögum. Hjúkrunarfræðingar búa yfir sérþekkingu á sviði sýkingavarna og samspili sjúkdóma og samfélagslegra þátta. Þessi þekking er nauðsynleg þegar móta á stefnu og aðgerðir í sóttvörnum og tryggir að sjónarmið sjúklinga, samfélags og heilbrigðiskerfis séu metin í heildrænt. Fíh gerir því kröfu um að hjúkrunarfræðingur eigi sæti í farsóttanefnd.
Sumir líta svo á að þegar hrekkjavöku er lokið sé í lagi að byrja skreyta fyrir jólin og spila jólalög…ég er ekki alveg þar en við á skrifstofunni erum nú samt búin að setja upp jólatréð inni í sal – því nú fara fagdeildir að halda sína jólafundi og því er mikilvægt að skapa jólalegan anda í félaghúnsæði okkar. Ég vona að hjúkrunarfræðingar nýti sér fagdeildirnar vel til þess að efla tengsl og deila þekkingu. Gleðileg jó…nei ekki alveg strax! Þar til næst 😉