21/11/2025
Ef þú ert að fást við fíknimynstur af einhverju tagi þá vil ég endilega deila smá með þér varðandi dópamín í heilanum.
🧠 Sjáðu fyrir þér brautir í heilanum sem líta svona út:
——————> )——————
Þegar þú gerir eitthvað, eða neytir einhvers sem lætur þig fá mjög stóran skammt af vellíðan súper hratt, (t.d. borðar fullt af sælgæti eða skyndibita, drekkur áfengi, neytir eiturlyfja eða ákveðinna lyfja, horfir á klám, horfir endalaust á sjónvarpið, ert lengi að skrolla á samfélagsmiðlum eða eitthvað annað sem fyllir ÞIG af vellíðan) þá dælist út rosalega mikið af dópamíni frá sendistöðum ——————>💥
og yfir í móttökustöðvar sem taka á móti þessu dópamíni
💥)——————
🧠 Í þessum móttökustöðum er fullt af pínulitlum móttökurum, en það eru þeir sem taka inn dópamínið og fylla þig af vellíðan.
Málið með heilann er að hann leitast stöðugt við að vera í jafnvægi, en þegar við gerum eitthvað sem tekur okkur úr jafnvægi, t.d. eitthvað sem dælir hratt út miklu dópamíni, þá bregst hann strax við og reynir að koma á jafnvægi.
🍭 Ef þú t.d. borðar fullt af sælgæti einn daginn og ferð í svaka dópamín vímu og vellíðan (ferð langt upp úr jafnvæginu), þá hugsar heilinn þinn “Hey! Þetta gengur ekki, best að koma í veg fyrir að þetta gerist aftur!” og það sem hann gerir er að loka fyrir hluta af móttökurunum.
🍭 Svo kannski næsta dag færðu þér aftur nákvæmlega sama skammt af sælgæti og býst við að líða nákvæmlega jafn vel, en þú verður heldur betur fyrir vonbrigðum þegar það gerist ekki.
Og hvað gerir þú þá? Jú heyrðu, þú færð þér auðvitað bara meira magn. Ég meina, þú vilt bara finna fyrir vellíðan; þú vilt bara láta þér líða vel. Ekki seinna en núna strax.
🍭 En atburðarásin endar ekki hérna, því núna hugsar heilinn þinn “Nei hver þremillinn, þetta gengur ekki! Ég verð að loka fyrir fleiri móttakara!” og núna þarftu enn meira magn af sælgæti til að finna fyrir vellíðan.
Þetta verður auðveldlega að vítahring þar sem þú gerir eða neytir sífellt meira af þínu “stöffi” en líður sífellt verr.
Því dýpra sem þú sekkur í þessa dimmu holu, því meira lokast fyrir dópamín móttakarana og það veldur því að þú hættir að finna fyrir ánægju og gleði yfir hlutum sem áður glöddu þig. Þér líður sífellt verr. Annað sem gerist er að framkvæmdakrafturinn þinn minnkar og minnkar, en það veldur því að þú átt sífellt erfiðara með að koma jafnvel einföldum hversdagslegum hlutum í verk.
Þetta er vondur staður að vera á.
Það er auðvelt að detta í þá gryfju að hugsa “ég verð að halda áfram að gera/neyta ### því þetta er það eina sem færir mér einhverja vellíðan!” en það er auðvitað haugalygi. Sannleikurinn er hið gagnstæða: að þetta ### er það sem er að tæma gjörsamlega alla gleði og vellíðan úr þér, ekki ólíkt vitsugunum í Harry Potter sem sjúga alla hamingju úr fólki.
💛 Góðu fréttirnar eru þær að þú getur náð aftur jafnvægi í dópamín kerfinu. Ef þú hættir ### þá tekur það að meðaltali 30 daga að koma aftur á jafnvægi í þessu kerfi. Þá fer þér að líða betur, þú ferð að finna fyrir meiri ánægju yfir venjulegum hlutum og þú átt auðveldara með að koma hlutum í verk.
Ef þú ert að fást við alvarlega fíkn, þá er mikilvægt að leita sér hjálpar og fá stuðning. Þú ert svo alls ekki ein(n) með þennan vanda (sama hvaða tegund af fíkn þú ert að fást við) og oft er svo ofsalega gott að fá stuðning frá þeim sem hafa verið á sama stað, eða eru með þekkingu og reynslu af því að vinna með fólki með fíknivanda af ýmsu tagi.
🌅 En hvað á maður að gera til að halda dópamíninu í jafnvægi svona dags daglega?
Jú, maður á að passa uppá að dæla því ekki of hratt og mikið í einu. Ef dópamínið væri vatn í krana, þá væri best að láta það dropa niður í nokkuð stöðugu jafnvægi. Ekki bara skrúfa frá krananum og láta það flæða af fullum krafti. Þannig helst maður í jafnvægi og vellíðan. Ekki jójó tilfinningarússíbana sem skiptist á að stökkva upp og sökkva svo niður. Svo er hægt að gera ákveðna hluti sem hafa jákvæð áhrif á þetta kerfi, en þar kemur hreyfing sterk inn, en annað eins og t.d. kuldaböð hafa einnig mjög góð áhrif.
Ég er enginn sérfræðingur í þessum málum og útskýri kannski ekki nógu vel, en þetta er gróf mynd af því sem gerist í heilanum og ofsalega gott að skilja þetta ferli.
Elsku þú 🌼
Ef þér finnst, eins og mér, mikilvægt að fólk fái þessar upplýsingar - þá hvet ég þig eindregið til að deila þessum pósti, eða bara að eiga gott samtal við fólkið þitt um þessar upplýsingar. Annars þakka ég þér fyrir lesturinn. Góða helgi:)
- Fjóla María