21/04/2023
Hefði ekki getað orðað þetta betur 🙂
Sem miðaldra smágerð tandurhrein lyfjalaus kvensa sem hefur rifið í járn í 24 ár getur Naglinn sagt með hönd á hjarta að enginn veit betur að það er ógeðslega erfitt að byggja upp haug af kjöti á beinagrindina.
ÓGEÐSLEGA ERFITT.... afsakið frönskuna.
Þegar konur segjast ekki vilja verða of massaðar og hanga því frekar á skíðavélinni klukkutímum saman frekar en að rífa í járnið þá vill Naglinn benda þeim á að það er svipað og vilja ekki kaupa bíl því þú vilt ekki keyra Formúlu eitt. Halló Raikonen.
Hreysti er því miður alltof oft með áherslu á útlit.
Að verða grennri. Mjórri. Minni.
Það getur búið til óheilbrigt samband við æfingar þegar þær verða verkfæri til að brenna hitaeiningum og minnka ummál á lærum, rassi og maga.
Langar leiðinlegar þolæfingar sem þurfa alltaf að verða lengri og lengri til að hafa einhver áhrif.
En þar er líka galli á gjöf Njarðar.
Langar þolæfingar hleypa út of miklu magni af streituhormónum og við kvensurnar verðum viðkvæmari fyrir þeim með aldrinum. Svo ef þú ert 35, 45, 55, 65 ára.... járnið er miklu betri vinur þinn.
Vöðvar eru vinur þinn.
✅ Að byggja vöðva þýðir ekki að að þú þurfir að nota handfrjálsan búnað út af bakvöðvum og skipta gallabuxunum út fyrir leggings útaf risalærum. Sem betur fer eru útlitsstaðlar að breytast þar sem margar túttur vilja vera með sýnilega vöðva. Að æfa til að verða mjórri og minni er smám saman að lauma sér inn á Þjóðminjasafnið með símaskránni.
✅ Að byggja vöðva er eins og að leggja inn í lífeyrissjóð. Því meiri vöðvamassi, því auðveldara er að missa fitu sé það markmiðið. Efnaskiptin verða hraðari, grunnbrennslan verður öflugri bæði í sófanum að tjilla og á æfingunni sjálfri þar sem vöðvar eru orkufrekasti vefur líkamans.
✅ Þú getur svelt þig eða hamast eins og rolla á girðingastaur á þrekstiganum og verið minni að ummáli en vöðvarnir hverfa í Bermúdaþríhyrninginn.
Ef þú hinsvegar missir fitu samhliða kjötsöfnun gerirðu líkamann þéttari og mótaðri og líkaminn lítur allt öðruvísi út jafnvel í sömu þyngd, því vöðvar taka miklu minna pláss en fituvefur.
✅ Ein mýta sem virðist halda lífi eins og þrjóska pottaplantan sem þú vökvar aldrei, er að vöðvar breytast í fitu ef þeir eru ekki virkjaðir, og fita breytist í vöðva þegar þú mætir uppá punkt og prik í ræktina. En vöðvar og fita eru tveir mismunandi vefir í líkamanum. Vöðvaþræðir minnka að ummáli ef þeir verða atvinnulausir lengi, en þeir hverfa aldrei. Þeir breytast heldur ekki í fitu heldur tekur fitan meira pláss ef hitaeiningainntaka er meiri en líkaminn þarf.
✅ Ef markmiðið er fitutap, þá er uppbygging vöðva skotheldasta aðferðin. Þú gerir þér kleift að gúlla meira og það nýtist í vöðvabyggingu. Það verður betri hreinsun á úrgangsefnum, hærri grunnbrennsla, minni bólgumyndun, Estrógrenmagnið verður betra með auknum vöðvamassa. Líkaminn verður líka betri í að nýta insúlín sem þýðir jafnari blóðsykur og allskonar annað sem hefur ekkert með útlit að gera en allt með heilbrigða maskínu. Og heilbrigður líkami geislar af fegurð.
✅ Þegar þú setur kraftinn í lyftingar býrðu oft til heilbrigðara samband við æfingar og stuðlar að betri heilsuhegðun.
Þú ferð inn til að verða betri. Til að verða sterkari.Til að bæta tækni. Til að æfa þig.
Þú ferð að næra þig betur til að verða sterkari.
Þú ferð fyrr að sofa til að jafna þig betur.
Þú ferð að taka inn vítamín og steinefni til að verða pínkuponsu betri.
Þú ert ekki að brenna vöðvum eins og getur gerst við langar þolæfingar.
✅ Konur hræðast oft galvaníserað stálið af hræðslu við að verða buffaðar á örfáum vikum. Ef þú ert með slíkt stökkbreytt gen að buffast upp á aðeins örfáum vikum við að færa stál úr stað þá skaltu drífa þig niður í Decode til Kára í rannsókn.
En ef þú ert eins og 99.9999 % kvenkyns sem hafa ekki yfir testósterónbúskap að ráða fyrir slíka kjötbyggingu þá þarftu ekkert að óttast.
Þú getur líka gert allskyns óheilbrigðar aðferðir bara til að sjá nálina færast norðar á vigtinni.
Þú getur misst þyngd af því þú drakkst ekki deigan dropa í gær.
Eða þú sleiktir kartöflu og lést það vera einu kolvetni dagsins.
En styrkur er hlutlaus.
Annað hvort ertu að verða sterkari eða ekki.
Annað hvort geturðu bætt lóðum á stöngina eða ekki.
Annað hvort geturðu rifið upp þyngri réttstöðu eða ekki.
Annað hvort geturðu beyglað meira eða ekki.
Þú þarft samt ekki að smokra þér í spandexgalla, kalka þig uppá bak, öskra og sniffa ammóníak og fá blóðnasir í hnébeygju.
Það er nóg að láta stóru æfingarnar verða brauðið og smjörið í æfingakerfinu.
🔷 Hnébeygjur
🔷 Réttstöðulyfta
🔷 Axlapressa
🔷 Bekkpressa
🔷 Rassabrú
🔷 Róður
-Notaðu stöng eða handlóð eða ketilbjöllur
-Lyftu 3-4 daga í viku
-Framkvæmdu 6-12 endurtekningar
-Gerðu 3 sett af hverri æfingu
-Hvíldu 30-90 sekúndur milli endurtekninga
Sjálfstraustið keyrist upp í rjáfur við að slíta þyngra og þyngra járn frá gólfi í hverri viku.
Þarf frekari vitna við?
Rífðu í járnið og slíttu upp stangir.
______________________________________
Kreatín frá NOW Foods Iceland til að lyfta þyngra og fleiri reps.